top of page
Concrete Wall

Léttur 2017

Vorönnin hófst 10. janúar.

Léttur eru 120 talsins

Söngkvöld

Við héldum söngkvöld í febrúar sem tókst svona ljómandi vel. Konur komu með með ýmislegt góðgæti á borð og svo var sungið og spjallað.
Þema kvöldsins var munstur og gaman að sjá hvað konur voru uppátækjasamar.

Æfingabúðir 

Í mars héldum við af stað í æfingabúðir austur í Mýrdalinn og enn á ný varð Hótel Dyrhólaey fyrir valinu.

Þar var sungið eins og vindurin og sungið meira. Við skelltum okkur svo í sparigallann á laugardagskvöldinu, borðuðum góðan mat, hver rödd tróð upp með skemmtiatriði sem var hvert öðru skemmtilegra og svo sungum við, dönsuðum og sungum aðeins meira.

Vortónleikar Austurbæ

Vortónleikarnir Léttsveitarinnar voru í Austurbæ annað árið í röð og var Léttsveitin með þeim seinustu sem komu fram í þessu húsi sem skellti í lás nokkrum dögum seinna. Nú skyldi Austurbær verða að norðurljósa sýningarhúsi.

Tónleikarnar báru yfirskriftina Komdu í bíó og var troðfullt hús hjá okkur. Aðallega voru þetta lög úr íslenskum bíómyndum, en nokkur lög voru úr erlendum m.a úr James Bond. Hljómsveitin var undir styrkri stjón Öllu en hana skipuðu auk hennar, þeir Erik Quivk á trommur, Ásgeir Ásgeirsson á gítar, Gunnar Hrafnsson á bassa og Daði Birgisson á hljómborð.

Við vorum ekki með neina einsöngvara á þessum tónleikum heldur var kórinn í aðalhlutverki. Við sýndum myndbrot úr bíómyndum á stórum tjöldum, vorum með hreyfingar og props. Fólk var himinlifandi yfir þessu hjá okkur og við fengum mikið hrós fyrir. Við vorum alveg í skýjunum eftir þetta allt og voru þetta með betri tónleikum sem Léttsveitin hefur haldið og þeir allra skemmtilegustu.

Efnisskrá tónleikana

Vorferð í Borgarfjörð

Laugardaginn 6. maí á dásamlega fallegum degi lögðu um 90 konur af stað í vorferð með nesti og nýja skó og var ferðinni heitið upp í Borgarfjörð.

Fyrsta stopp var Ullarvinnslan á Hvanneyri þar sem konur skoðuðu handverk og listmuni. Sökum veðurblíðunnar sátu nú flestar konur úti við og nutu hennar áður en haldið var á næsta stopp sem var Reykholt. Þar voru Bíó tónleikarnir okkar nánast endurteknir við góðar undirtektir og flotta mætingu. Þeir mættu upp í Borgarfjörð félagarnir okkar þeir Ásgeir og Gunnar og spiluðu með okkur og Öllu. 

Eftir þessa skemmtilegu tónleika var komið að nestisstund og konur settust út í blíðuna með nestispokana frá stjórn sem í leiðinni deildi út fljótandi veigum fyrir þær sem vildu. 

Eftir þetta stopp var haldið á næsta stað þar sem Steðji brugghús var heimsótt. Þar fengum við að smakka framleiðsluna og bjórbóndinn hélt fyrirlestur um bjórgerð. 

Okkar síðasta stopp var síðan hótel Bifröst þar sem við ætluðum að gista og hafa gaman saman. Góður matur, mikill söngur og gleði. Það voru ánægjuleg endarlok á frábæru starfsári.

Haustönn hófst þann 1. september með hamborgaraveislu í boði Grillvagnsins og ýmsu öðru  góðgæti í Fóstbæðraheimilinu og var frábær mæting og mikil gleði að hittast aftur eftir gott frí.

Tilefnið var bæði gaman og ljúfsárt en þarna kvöddum við hana elsku Öllu okkar allra sem ákvað að beina kröftum sínum annað að þessu sinni og segja þetta gott - í bili- með Léttsveitinni eftir dásamleg og farsæl 22 ár.

Við erum 120 sem hefjum haustönn

Aðalfundur

Aðalfundur Léttsveitarinnar var haldin 19.september.
Stjórn endurnýjaðist að litlum hluta, Særún formaður gaf ekki kost á sér áfram og gekk úr stjórn og var Rannveig Þorvaldsdóttir kosin nýr formaður. Inn í stjórn kom svo Hrefna Magnúsdóttir.

Stjórn 2017-2018 er því skipuð þannig:
Rannveig formaður
Margrét varaformaður
Ragna Birna gjaldkeri
Hrefna ritari
Dagbjört meðstjórnandi

Heimsókn frá Danmörku

Í október tóku Léttsveitarkonur á móti frábærlega skemmtilegum kór frá Danmörku, Chilli Chicks. 

Við héldum tónleika með þeim í Háteigskirkju sem tókust mjög vel og vel mætt í kirkjuna.

Frumflutt var lag sem einn stjórnandi Chilli Chiks samdi ásamt einni kórkonu og sem við höfðum æft fyrr um haustið. Mjög falleg lag og áhrifamikið. Eftir tónleikana fengum við okkur að borða og var Grillvagninn pantaður aftur með hamborgaraveislu sem sló í gegn.

Síðan var tjúttað fram á nótt og óhætt að segja að danir eru alveg með það þegar kemur að söng og gleði. 

Léttsveitin og Chilli Chicks á tónleikum í Háteigskirkju í okt 2017

Langur laugardagur

Léttsveitin hélt langan laugardag þann 4. nóvember í húsnæði FÍH. Var vel mætt og gekk vel að æfa jólalögin. Léttsveitarsúpan og heimabakað brauð var í boði í hádeginu og öllu gerð góð skil.

Það var handagangur í öskjunni við undirbúning Léttsveitarsúpunnar 

Jólatónleikar í Langholtskirkju 

Jólatónleikar Léttsveitarinnar voru haldnir í Langholtskirkju 2. desember kl. 14 og 17. Var vel mætt á báða tónleikana og tókust þeir mjög vel.
Hljómsveitin okkar að þessu sinni var skipuð eftirfarandi: Börkur Hrafn Birgisson á gítar, Bassi Ólafsson á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa. Hljómsveitarstjóri var Daði Birgisson á píanó/hljómborð. 
Gestir okkar var Bjargræðiskvartettinn sem í eru: Gísli Magna, Aðalheiður Þorsteinsdóttir, Anna Sigga Helgadóttir og Örn Arnarson.

Efnisskrá tónleikana

bottom of page