top of page

Viðtal við Friðgerði 
Sunnudagsblað / 25. jan 1998

Þetta snýst um sönggleði

Friðgerður S. Benediktsdóttir er í Léttsveit Kvennakórsins.

Léttsveitin var stofnuð haustið '95 en áður hafði Kvennakórinn verið með ýmsa hópa. Jóhanna Þórhallsdóttir hefur verið stjórnandi Léttsveitarinnar frá upphafi. "Ég hef verið með Léttsveitinni frá upphafi," segir Friðgerður. "Það var ein af hugsjónum Kvennakórsins að allar konur sem langaði til að syngja, gætu verið með. Hjá Léttsveitinni voru færri æfingar en hjá Kvennakórnum og hún hentaði því mörgum konum sem ekki hafa tíma til að starfa í Kvennakórnum.
En svo vinda hlutirnir upp á sig. Meiningin var að við æfðum einu sinni í viku og hefðum síðan raddæfingar þriðja hvern laugardag. Þetta átti að vera til gamans ­ og er það svo sannarlega ­ en svo hefur Léttsveitin orðið meira en til stóð. Við æfum ennþá bara einu sinni í viku, en svo erum við eiginlega hérna alla laugardaga.


Það hófst með því að Kvennakórinn fékk okkur til að taka þátt í gospel-tónleikum í mars. Það áttu upphaflega að verða fernir tónleikar en aðsóknin var svo gríðarleg að þetta endaði á sjö tónleikum og þeir hefðu vel getað orðið fleiri. Við þurftum að æfa mikið fyrir þessa tónleika, miklu oftar en einu sinni í viku. Og þegar við sáum að við gátum tekið þátt í svona stóru dæmi, fylltumst við metnaði.
Það hefur verið alveg einstaklega góður andi í Léttsveitinni. Við gerum bara það sem okkur dettur í hug og erum til dæmis búnar að fara tvisvar til Írlands. Fyrst haustið '95 þegar við fórum til Dublin og sungum í tveimur kirkjum. Aftur í haust á alþjóðlega kórakeppni í Sligo. Við unnum nú ekki til verðlauna en fengum mjög góðar umsagnir. Síðan vorum við með sjálfstæða tónleika í Íslensku óperunni sl. vor, sem við kölluðum Græna sveiflu vegna þess að við vorum með nokkuð af írskum lögum á dagskránni og fengum Rússíbanana til liðs við okkur. Það var æðislega gaman.
Annars syngjum við hvað sem er, dægurlög, þjóðlög, gospel, lög af léttara taginu en ekki mikilfengleg kórverk. Hjá okkur snýst þetta einfaldlega um sönggleði."

Fréttatilkynning apríl 1998

| Menningarlíf | 1.apríl 1998

Rauð sveifla í Íslensku óperunni

LÉTTSVEIT Kvennakórs Reykjavíkur heldur tónleika í Íslensku óperunni miðvikudaginn 1. og þriðjudaginn 7. apríl nk. kl. 19.30 og kl. 22 bæði kvöldin. Stjórnandi er Jóhanna V. Þórhallsdóttir, píanóleikari Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Að vanda er efnisskráin létt. 
Til liðs við Léttsveitina í þessari Rauðu sveiflu koma Wilma Young fiðluleikari, Árni Scheving harmónikuleikari og Tómas R. Einarsson bassaleikari. Einnig mun kvartettinn Gömlu krydddrengirnir þenja raddböndin, kvartettinn skipa Skarphéðinn Þór Hjartarson. Örn Arnarson, Egill Gunnarsson og Valdimar Másson.

Þess má geta að Léttsveitin lagði land undir fót sl. haust og tók þátt í kórakeppni í Sligo á Írlandi ásamt 40 öðrum kórum hvaðanæva að úr heiminum. Kórinn er að ljúka sínu þriðja starfsári.

Sala aðgöngumiða er hjá Léttsveitarkonum og í Pennanum Austurstræti, Hallarmúla og Kringlunni, einnig hjá Máli og menningu á Laugavegi og fyrir sýningar í Íslensku óperunni. Miðaverð er kr. 1.200.

Fréttatilkynning okt 1998

| Menningarlíf |23. október 1998

Kvennakór Reykjavíkur


Léttsveitin til Vestfjarða

LÉTTSVEIT Kvennakórs Reykjavíkur heldur tvenna tónleika á Vestfjörðum og verða þeir fyrri í Ísafjarðarkirkju föstudaginn 23. október kl. 20.30. Seinni tónleikarnir verða í Íþróttahúsi Bolungarvíkur laugardaginn 24. október kl. 17.

Stjórnandi Léttsveitarinnar er Jóhanna V. Þórhallsdóttir. Hljóðfæraleikarar eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir á píanó, Wilma Young á fiðlu og Tómas R. Einarsson á bassa.

Á efnisskrá eru m.a. innlend og erlend þjóðlög. Gestir á tónleikunum eru Kvennakór Bolungarvíkur, stjórnandi Margrét Gunnarsdóttir og píanóleikari Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir. Kórarnir munu einnig syngja saman nokkur lög, segir í fréttatilkynningu.

Miðar seldir við innganginn. Miðaverð kr. 1.000.

bottom of page