top of page

Umfjöllun & viðtöl apríl 2008

| Daglegt líf |18.apríl 2008 | 

Hundrað kvenna hljómur

Fjölmargar systur, frænkur og mæðgur má finna í Léttsveit Reykjavíkur, sem er hundrað kvenna kór. Kristín Heiða Kristinsdóttir hitti tvær systur og föðursystur þeirra, sem allar njóta þess ríkulega að syngja í stórum hópi kvenna.

Ég fór fyrst og fremst í Léttsveitina til að syngja. Ég söng heilmikið sem krakki og unglingur og hef verið í félagsskap þar sem mikið hefur verið sungið. Ég hafði lítið sungið eftir að ég átti börnin og löngunin til að fara í kór dró mig út í þetta,“ segir sú elsta í hópnum, frænkan Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir, sem hefur verið lengst í kórnum eða frá því haustið 2000.

„Ég valdi Léttsveitina vegna lagavalsins hjá þeim en ekki síður vegna orku Jóhönnu Þórhallsdóttur stjórnanda sem höfðaði til mín. Ég var ekki í þörf fyrir félagsskap, heldur fór ég fyrst og fremst til að fá útrás fyrir söngþörfina. Aftur á móti hef ég eignast margar góðar vinkonur í kórnum.“

Grátandi upp að altarinu

Frænka hennar Elísabet söng með henni í barnakirkjukór þegar þær voru litlar. Ingibjörg Margrét hefur áfram orðið: „Við sungum hjá séra Árelíusi og ég söng meira að segja einsöng frá átta til tíu ára aldurs í þeim góða kirkjukór. Ég fór grátandi upp að altarinu í fyrsta skiptið sem ég átti að syngja einsöng, ég kveið svo fyrir,“ segir hún og skellihlær að minningunni.

Sú yngsta í hópnum, nafna hennar Ingibjörg og systir Elísabetar, segist aftur á móti ekki hafa sungið mikið fyrr en hún gekk til liðs við Léttsveitina. „Íþróttir áttu hug minn allan áður og mestur frítíminn fór í þær. Ég söng þó eitthvað í framhaldsskóla og tók tónlistaráfanga í Kennaraháskólanum þar sem við stofnuðum kór. Mér hefur alltaf fundist mjög gaman að syngja.“

Þær frænkur eru hógværar og segja að engar tónlistarstjörnur sé að finna í stórfjölskyldunni. „En það er mikil og almenn sönggleði.“

Elísabet segist fyrst hafa heyrt í Léttsveitinni þegar hún sá hana og heyrði í fertugsafmæli Ingibjargar Margrétar frænku sinnar. „Ég heillaðist algjörlega og vildi strax ganga í kórinn en þurfti að vera á biðlista í heilt ár. Við Ingibjörg systir skelltum okkur í kórskóla hjá Kvennakór Reykjavíkur á meðan en 2002 fékk ég loksins að vera með og Ingibjörg kom ári síðar til liðs við okkur.“

Stutt er á milli frænknanna Ingibjargar Margrétar og Elísabetar í aldri og áttu þær mikið saman að sælda á uppvaxtarárunum en Ingibjörgu yngri kalla þær skottuna. „Það er rosalega gaman að vera allar þrjár saman í kór og það styrkir mikið tengslin á milli okkar enda förum við á hverjum þriðjudegi saman á söngæfingar auk þriðja hvers fimmtudags.“

Tuktar okkur stundum til

Þær eru afskaplega ánægðar með kórstjórann Jóhönnu. „Auðvitað þarf að halda uppi aga þar sem koma saman hundrað konur, en gleðin er alltaf í fyrirrúmi. Jóhanna leggur áherslu á að við höfum gaman af því sem við erum að gera og ef einhverjir hnökrar koma upp tökum við líka á því með gleði. Þótt hún tukti okkur stundum til er það bara nauðsynlegt og hollt fyrir okkur. Við erum að glíma við verk eftir Atla Heimi sem heitir Kvennarapp og það er heilmikið hjakk á meðan við erum að ná því en það er frábært þegar það smellur saman.“ Þær segja Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara einnig eiga stóran þátt í því hvernig Léttsveitin er. „Samspil þeirra Jóhönnu skiptir miklu máli og það hvernig þær vinna saman á æfingum.“

Þær segja Léttsveitina vera sérstakt samfélag ótal ólíkra kvenna sem koma úr öllum þjóðfélagshópum. „Margar okkar koma úr umönnunarstéttum og eru þar af leiðandi í störfum þar sem þær þurfa að gefa mikið af sér. Þess vegna er svo gott að vera í kór þar sem söngurinn gefur okkur mikið til baka. Það er alveg sérstök stemning að finna samhljóminn þegar við syngjum saman,“ segir Ingibjörg Margrét. „Þetta eru svo frábærar konur og dásamlegur félagsskapur. Innan hópsins er fjöldi nefnda og við lærum heilmikið af því starfi. Við höfum líka gefið út tvær matreiðslubækur með uppáhaldsréttunum okkar og einn geisladisk.“

Nafna hennar, skottan Ingibjörg, bætir við að það sé gott að eiga sitt eigið áhugamál. „Þegar maður er kominn með börn og fjölskyldu er svo gott að geta labbað út og slakað á með hinum konunum á söngæfingu. Ef við erum þreyttar endurnærumst við í söngnum enda finnur maður orkuna frá öllum þessum konum þegar maður gengur í salinn.“

Í bleika útrás til Berlínar

Léttsveitin fer í tónleikaferðir til útlanda annað hvert ár en innanlands hitt árið. „Við höfum til dæmis sungið á Kúbu, Ítalíu og Norðurlöndunum. Silja Hauksdóttir gerði heimildarmynd um Ítalíuferðina okkar sem var sýnd í sjónvarpinu og hún gefur góða mynd af þessu systrasamfélagi. Það er svakalega gaman hjá okkur í tónleikaferðum og við verðum eins og stelpur í sumarbúðum. Núna í apríl förum við í bleika útrás til Berlínar og ætlum að syngja í Admirals Palast, menningarhúsinu sem Helgi Björns á þar ásamt fleirum. Maríus Sverrisson ætlar að syngja með okkur og við ætlum líka að halda árshátíðina okkar í þessari Berlínarferð,“ segja þær með tilhlökkun. „En við ætlum að prufukeyra útrásina okkar á tvennum vortónleikum í næstu viku í Bústaðakirkju og þá ætlar Magga Stína að syngja einsöng með okkur í nokkrum Megasarlögum.“

khk@mbl.is

Vortónleikar Léttsveitarinnar verða 22. og 24. apríl kl. 20.00 í Bústaðakirkju.

Picture22.jpg

Söngglaðar F.v.: Elísabet, Ingibjörg systir hennar og Ingibjörg frænka við málverk frá Kúbuferðinni

Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Call 

123-456-7890 

Email 

Follow

  • Facebook
  • Twitter
  • LinkedIn
  • Instagram
bottom of page