![]() | ![]() | ![]() | ![]() |
---|---|---|---|
![]() | ![]() |
Umfjöllun & viðtal við Rannveigu Þorvalds 2018
Innlendar fréttir | 28. nóvember 2018
Léttsveitin skemmtir sér og öðrum með söng
• Pálmi Gunnarsson gestasöngvari á jólatónleikunum
Söngurinn hljómar frá safnaðarheimili Háteigskirkju um þessar mundir á mánudags- og miðvikudagskvöldum og þegar betur er að gáð er um að ræða tóna frá um 120 konum í Léttsveit Reykjavíkur, fjölmennasta kvennakór landsins.
„Við erum að æfa fyrir árlega jólatónleika okkar,“ segir Rannveig Þorvaldsdóttir, formaður kórsins. Hún bætir við að þær taki sig ekki of alvarlega og því sé mikið lagt upp úr léttleika í bland við hátíðleikann. „Við leggjum áherslu á að hafa þetta skemmtilegt og ekki aðeins fyrir okkur heldur líka fyrir hlustendur,“ heldur hún áfram. „Við viljum gefa gestum okkar tækifæri til þess að syngja með okkur og erum því líka með samsöng inni í efnisskránni.“
Gísli Magna er stjórnandi kórsins, Tómas Guðni Eggertsson spilar á píanó og sér um hljómsveitarstjórn og Pálmi Gunnarsson verður gestasöngvari á jólatónleikunum.
Samheldnar og kraftmiklar
Kórinn var stofnaður árið 1995 og starfaði fyrst undir merkjum Kvennakórs Reykjavíkur sem Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur. Árið 2000 var ákveðið að allir kórar, sem störfuðu undir merkjum Kvennakórsins, skyldu verða sjálfstæðir kórar og var stofnfundur Kvennakórsins Léttsveitar Reykjavíkur haldinn 22. september sama ár.
Rannveig bendir á að nokkrar konur hafi sungið í kórnum frá upphafi. „Það er svo gaman að syngja í svona kór. Ég sé ekki eftir að hafa valið Léttsveitina því það er alveg einstakt að vera hluti af svona samheldnum og kraftmiklum hópi.“
Jólatónleikarnir eru fastur liður í starfseminni. Auk þess hefur kórinn farið reglulega í söngferðir til útlanda, síðast til Þýskalands í vor sem leið, og árlega er farið í ferðir út á land. „Þá förum við í æfingabúðir og treystum böndin,“ segir Rannveig. Hún leggur áherslu á að konurnar hafi mismunandi bakgrunn, starfi eða hafi starfað á öllum sviðum og hafi ólíka sýn á menn og málefni, en séu samstiga í öllu því sem þær taki sér saman fyrir hendur. „Þetta er skemmtilega fjölbreyttur hópur en söngurinn sameinar okkur,“ segir hún og bendir á að nokkrir undirhópar hafi orðið til út frá kórnum. „Það hafa til dæmis myndast göngu-, golf- og spilahópar innan kórsins.“
Kórinn æfir í Háteigskirkju en jólatónleikarnir verða í Langholtskirkju laugardaginn 8. desember nk. og hefjast klukkan 14.00 og 16.30. Hægt er að kaupa miða á æfingum kórsins eða að senda tölvupóst á netfangið lettmidar@gmail.com. Nánari upplýsingar um kórinn eru á heimasíðu hans, lettsveit.com.

Rannveig Þorvaldsdóttir og Gísli Magna standa fyrir framan aðra kórfélaga á æfingu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon