top of page
Concrete Wall

Léttur 2000

Norrænt kóramót 2000.


Dagana 25.-27. febrúar 2000 hélt Léttsveitin í þriðja sinn í æfingabúðir á Úlfljótsvatni. Stína bongó var með rhythm kennslu á föstudagskvöldið sem heppnaðist frábærlega.
Á laugardaginn var létt Tai Thi með Dunnu og síðan löng og góð æfing og u.þ.b. þegar kórinn söng úr Trójudætrum "Blóð, blóð streymdi, heitt um helgan stall" vaknaði Hekla gamla af værum blundi og byrjaði að gjósa sínu heita blóði.

Um kvöldið skemtum við okkur undir skemmtiatriðum frá hverju húsi, sem var hvert öðru betra. Á sunnudeginum var létt æfing og haldið heim upp úr hádeginu.
Við rétt sluppum í bæinn áður en foráttuveður skall á, Hellisheiðinni lokað og ný þjóðvegahátíð var haldin, þ.e. Þrengslin 2000. Frábærar æfingabúðir sem sýnir og sannar að nauðsynlegt er að hafa svona æfingabúðir á hverju ári.


Fréttatilkynningar, viðtöl & umfjallanir 2000
 
Norrænt kvennakóramót var haldið dagana 26.apríl-1. maí og var Léttsveitin meðal þeirra kóra sem þar tóku þátt. Léttsveitin söng á tónleikum í Háteigskirkju. Opnunarhátíðin var haldin í Gvendarbrunnum og lauk mótinu með stórtónleikum í Valsheimilinu þar sem um 900 konur sungu saman og síðan var endað á dansleik í Íþróttahúsi Mosfellsbæjar þar sem Milljónamæringarnir léku fyrir dansi.

Vortónleikar í Langholtskirkju

Tónleikar, sem báru yfirskriftina
"Nú tekur hýrna um hólma og sker"
voru haldnir í Langholtskirkju 17. og 19. maí 2000 og voru þeir vel sóttir eins og vanalega. Björk Jónsdóttir var einsöngvari á tónleikunum auk þess sem Tómas R. Einarsson og Wilma Young voru enn og aftur með okkur og svo spilaði Stína bongó af miklum krafti í frábærum Afríkurythma þannig að allir í salnum klöppuðu með.
Hápunktur tónleikanna var án efa flutningur Léttsveitarinnar á nokkrum lögum úr Trójudætrum eftir Leif Þórarinsson. Jóhanna kórstjóri var afar stolt af okkur þá. 
Frábærir tónleikar fyrir væntanlega ferð til Portúgals og Spánar.

 

Auglýsing vor 2000

Spánn & Portúgal

Frá 23. -30. maí 2000 var Léttsveitin á ferð og flugi á Spáni og í Portúgal. Við sungum eina tónleika í Sevilla, m.a. fyrir borgarstjóra Sevillaborgar og frú. Tónleikarnir vöktu mikla lukku nærstaddra og tromp tónleikanna var þegar við sungum Besamé Mucho á ýlhýrri tungu Spánverja. Frá Spáni héldum við til Portúgal þar sem við héldum tónleika í kaþólskri kirkju í Tavira. Hljómburður í kirkjunni var frábær. Að loknum tónleikum var okkur gefinn skjöldur frá Tavirabæ og vorum við stoltar af þeim heiðri sem okkur var sýndur.

Síðan var haldið til Albufeira í Algarve héraði þar sem kórkonur slöppuðu af og sóluðu sig, fóru í siglingu og versluðu eins og þeirra er von og vísa. Síðan héldum við eina tónleika fyrir Íslendinga sem staddir voru í Albufeira á Hótel Brisa Sol og tókust þeir með ágætum. Alltaf gaman að syngja fyrir landann. Frábær ferð í alla staði.

 

Stofnfundur Léttsveitarinnar

Stofnfundur Léttsveitarinnar var haldinn 22. september í Ými við Skógarhlíð. 
Kórinn hættir að starfa undir merkjum Kvennakórs Reykjavíkur og er nú sjálfstæður kór og fær nafnið Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur

Léttsveitarkonur eru nú 127 talsins

Í stjórn eru kosnar Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir, formaður, Elín Stella Gunnarsdóttir, varaformaður, Margrét Þorvaldsdóttir, gjaldkeri, Elín Sigríður Jósepsdóttir, varagjaldkeri og Eygló Eiðsdóttir, ritari sem vantar hér á myndina.
Hér með Jóhönnu kórstjóra og Öllu.

Fyrstu jólatónleikar Léttsveitarinnar voru haldnir í Ými 9. og 12. desember 2000. Yfirskrift tónleikanna var "Með gleðiraust"
Á efnisskránni voru ýmis jólalög í léttari kantinum og tókust tónleikarnir frábærlega vel. Færri komust að en vildu.

Léttsveitin naut enn einu sinni liðsinnis Tómasar R. Einarssonar auk þess sem Kristín Jóna Þorsteinsdóttir - Stína bongó, spilaði með okkur. Stína er meðlimur í Léttsveitinni, en fékk nú lítið að syngja með okkur í þetta sinnið. Tónleikarnir voru teknir upp og fengu Léttsveitarkonur diskinn til síns einkabrúks og var lítið annað spilað fyrir þessi jól en þessi frábæri diskur.

 

bottom of page