top of page

                           Grein úr DV
                 
Smellið á mynd til að lesa grein

Fréttatilkynning apríl 2001
Menningarlíf | 18. apríl 2001
Suður um höfin með Léttsveit Reykjavíkur

SUÐUR um höfin er yfirskrift þriggja sólartónleika kvennakórsins Léttsveit Reykjavíkur og mun kórinn með þeim fagna sumri. Tónleikarnir verða haldnir í Ými, húsi Karlakórs Reykjavíkur, og verða þeir fyrstu á morgun kl. 17. Aðrir tónleikar verða laugardagskvöldið 21. apríl kl. 20 og þriðju og síðustu tónleikarnir kl. 20 þriðjudagskvöldið 24. apríl.

Sungin verða ýmis lög úr suðri m.a. eftir Ricardo Rodriguez, Serrani, Sigfús Halldórsson og Pál Torfa Önundarson. Með kórnum syngja 3 söngkonur, þær Björk Jónsdóttir, sópran, Signý Sæmundsdóttir, sópran ásamt Jóhönnu Þórhallsdóttur, alt og undirleikari er Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari. Léttsveitin er skipuð hundrað og tíu konum.

Aðalheiður Þorsteinsdóttir hefur útsett flest lögin sem sungin verða og annast hún undirleik ásamt hljómsveit skipaðri gítarleikurunum Einari Kristjáni Einarssyni og Kristni Árnasyni og bassaleikaranum Jóni Skugga. Úr röðum kórsins koma fram Ása Bjarnadóttir sópran sem syngur einsöng og Stína bongó slagverksleikari.

Stjórnandi kórsins er Jóhanna Þórhallsdóttir.

Fréttatilkynningar maí 2001
Menningarlíf | 5. maí 2001
Léttsveit og lögregla í Grundarfirði

KVENNAKÓRINN Léttsveit Reykjavíkur og Lögreglukór Reykjavíkur halda sameiginlega tónleika í Grundarfjarðarkirkju í dag, laugardag, kl. 17.

​Á efnisskrá kóranna eru íslensk og erlend lög. Lögreglukórinn flytur t.d. lög Oddgeirs Kristjánsssonar og sænsk þjóðlög við íslenska texta. Einsöngvari með lögreglukórnum er Eiríkur Hreinn Helgason. Stjórnandi Lögreglukórsins er Guðlaugur Viktorsson og undirleikari er Pavel Smid. Stjórnandi Léttsveitarinnar er Jóhanna V. Þórhallsdóttir og undirleikari er Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Miðasala verður við innganginn.

Menningarlíf | 19. maí 2001
Lögreglukórinn í Seltjarnarneskirkju

LÖGREGLUKÓR Reykjavíkur heldur sína árlegu vortónleika í Seltjarnarneskirkju í dag, laugardag, kl. 16.

Í ár verða sérstakir gestir Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur. Dagskrá þeirra er byggð á suðrænni og léttri stemmningu.

Á dagskrá Lögreglukórsins verða m.a. lög eftir Árna Thorsteinson og Oddgeir Kristjánsson, einnig ýmis erlend lög með íslenskum eða erlendum textum.

Einsöngvari með Lögreglukórnum er Eiríkur Hreinn Helgason.

Stjórnandi Lögreglukórsins er Guðlaugur Viktorsson og stjórnandi Kvennakórsins Léttsveitar Reykjavíkur er Jóhanna V. Þórhallsdóttir.

Fréttatilkynning okt 2001
Akureyri og nágrenni 12. okt 2001
Glaðnar yfir Glerárkirkju

KVENNAKÓRINN Léttsveit Reykjavíkur heldur tónleika í Glerárkirkju á laugardag, 13. október, og hefjast þeir kl. 17. Fyrir léttum söngsystrum fer stjórnandi kórsins, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, og undirleikarar eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir og Tómas R.Fyrir léttum söngsystrum fer stjórnandi kórsins, Jóhanna V. Þórhallsdóttir, og undirleikarar eru Aðalheiður Þorsteinsdóttir og Tómas R. Einarsson. Aðalheiður hefur jafnframt útsett flest þau lög sem kórinn syngur.Lög Léttsveitarinnar eru yfirleitt á léttari nótunum og er efniviður sóttur um víða veröld. Efnisskrá tónleikanna er afar fjölbreytt. Íslensk og erlend lög af ýmsu tagi en þó ber lagavalið nokkurn keim af árstíðinni á norðurslóð.Miðasala verður við innganginn.

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur. Laugardaginn 13. október.

STJÓRNANDI kórsins var Jóhanna V. Þórhallsdóttir, sem stjórnað hefur kórnum frá upphafi, eða síðastliðin sex ár. Hún söng einnig einsöng í tveimum lögum og með henni og kórnum léku Aðalheiður Þorsteinsdóttir á píanó og Tómas R. Einarsson á kontrabassa.

Á efnisskránni voru sönglögin flest af léttara taginu. Eitt íslenskt lag var flutt og var það hið ljúfa lag Þorvaldar Blöndal við ljóð Davíðs Stefánssonar, Nú sefur jörðin sumargræn, í snoturri útsetningu Hildigunnar Rúnarsdóttur. Áheyrendur voru teknir með í söngvaferðalag "suður um höfin" og komið við á Spáni, Ítalíu og Suður-Ameríku. Þrír írskir söngvar fluttu áheyrendum Dublinarstemmningu.

Rússland var einnig heimsótt í þremum lögum og sígild dægurlög okkar voru einnig á borð borin. Þrátt fyrir að kórinn væri "aðeins" skipaður sjötíu konum og fimmtíu yrðu eftir heima var ekki hægt að heyra annað en vel þjálfaðar og hljómgóðar raddir væru í góðu jafnvægi. Ég var aðeins að velta því fyrir mér hve mikil gróska hefur verið í samkynjakórum að undanförnu. Eftir uppgangstíma karla- og kvennakóra á síðustu öld og fram á sjötta áratuginn fóru blandaðir kórar að sækja á. En á síðustu árum í allri jafnréttisbaráttunni virðist sóknin í samkynjakóra hafa aukist að nýju.

Sjálfsagt væri þetta verðugt verkefni fyrir félagsfræðinga að kanna, en á þessum vettvangi verður eingöngu fjallað um Léttsveitina út frá hennar eigin forsendum og þeim árangri sem hún hefur náð. Það vekur strax athygli hve geislandi glaðar konurnar eru og af hve miklu öryggi og með hve miklum tilþrifum þær syngja sín lög. Einbeiting og athygli á ákafri og markvissri stjórnun Jóhönnu var nær óbrigðul. Mikill raddstyrkur og fallegur raddblær einkenndi söng kórsins. Yfirraddir urðu aðeins of fyrirferðarmiklar á kostnað laglínu í stöku tilvikum. Markvisst hljóðfall hafa konurnar vel á valdi sínu. Best fannst mér þeim takast í írsku lögunum og náðu þar mjög sterkum tökum í blæbrigðaríkum og næmum söng. Helsti ljóður á söng kórsins var að hann hefði mátt syngja mun mildar og veikar í lögum sem þess kröfðust, eins og fyrrgreindu lagi Þorvaldar Blöndal og rússneska laginu Síðkvöld í sumarbústað. Reyndar endurtók kórinn síðasttalda lagið sem aukalag númer tvö og gerði það þá af mun meira næmi og innlifun. Aðalheiður Þorsteinsdóttir, sem leikið hefur með Léttsveitinni frá upphafi, átti fimm útsetningar á efnisskránni, sem voru faglega unnar, en síður frumlegar.

Aðalheiður er mjög öruggur píanóleikari, en hætti til að leika, að mínu mati, með of þétta hljóma og kraftmikla, sem hefði oft notið sín, að minnsta kosti í yfirhljómi þessarar kirkju, betur með þýðari og einfaldari brag.

Bassaleikur Tómasar R. gaf flutningi kórsins enn meiri breidd og jók á taktfastan og dansandi flutning Léttsveitar Reykjavíkur. Framsögn texta hjá kórnum var mjög góð og stundum það góð að andleysi og smekkleysi í sumum textunum varð fullljóst.

Mér finnst að svo góður kór eigi óhikað að fá ort betri ljóð eða gerðar betri þýðingar við söngva sem ætlunin er að bera á borð á svona tónleikum. Ég velti því einnig fyrir mér hvort efnisskráin hefði ekki orðið betri með því að velja fleiri lög með dýpri skírskotun til anda og efnis.

Eitt er þó ljóst að sannkölluð gleðistemmning ríkti á tónleikunum. Fagnandi og glaðbeittur söngur Léttsveitar Reykjavíkur skemmti öllum viðstöddum og kórnum tókst að rífa upp stemmningu og kveikja gleði í sinni.

Jón Hlöðver Áskelsson

Tónleikagagnrýni - Akureyri okt 2001

| Tónlist | 18. október 2001 | 1 mynd

TÓNLIST - Glerárkirkja

Geislandi glaðar konur

KÓRTÓNLEIKAR

19. desember 2001 | Menningarlíf TÓNLIST - Bústaðakirkja Aðventulögin á laufléttum nótum​

KÓRTÓNLEIKAR

Aðventutónleikar Léttsveitar Reykjavíkur. Stjórnandi: Jóhanna V. Þórhallsdóttir. Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanó; Tómas R. Einarsson, kontrabassi. Gestir: Sigurjón Jóhannesson tenór og Bjöllukór Bústaðakirkju. Laugardaginn 15. desember kl. 17.

HÆTT er við að myndi rugla ókunnugan í ríminu að komast að því að nafn Léttsveitar Reykjavíkur, er hélt aðventutónleika fyrir þétt setinni Bústaðakirkju á laugardaginn, næði yfir fullan 100 kvenna kór á móti tveggja manna hrynsveit píanós og kontrabassa. Í fljótu bragði ætti slíkur grúi að duga í 5-7 rytmíska kóra. En til varnar LR má alveg segja strax, að þó að lítt bólaði á eiginlegri sveiflu í djassrænum skilningi, var söngur kórsins samt ótrúlega samtaka miðað við stærð. Hvað þá með tilliti til þess, að í aðeins þriggja raða uppröðun þeirri sem staðarkostir buðu upp á varð hálfgert ginnungagap á milli yztu vængja kórsins.

Hitt er spurning hvort veitti af þriðja manni í undirleik, annaðhvort á gítar eða trommusett, til að draga betur fram aukaslögin ("off beat"). Enda freistaðist kontrabassinn oftar til að fylla inn aukanótu en gott var, með heldur þunglamalegum afleiðingum - ekki sízt á 3. slagi í þrískiptri takttegund. Styrkjafnvægi hljóðfæranna var annars mjög gott, en bassinn varð stundum fullframarlega í hrynjandi.

Þrátt fyrir oftast stutt lög var dagskráin í lengsta lagi (tæp hálf önnur klst. án hlés) og hefði kannski mátt sleppa 3-4 af þvældustu jólalummum, þó að þeir tónleikagestir er létu þetta eina kvöld duga fyrir aðventuinntöku í ár kynnu að vera ósammála. Svo tæpt sé fyrst á sérverkefnum kórsins, þá hljómaði hann hreinast og frísklegast í fyrsta hluta, þ.e. Hátíð í bæ (Christmas Wonderland(?)), þjóðlaginu

Það á að gefa börnum brauð (bæði ágætlega útsett af "Skarpa", líkast til dulnefni Skarphéðins Hjartarsonar úr söngkvartettinum Rúdolf, er alls var ábyrgur fyrir 4 raddsetningum). Kórinn dofnaði svolítið í Þá nýfæddur Jesú (Kirkpatrick) en hresstist aftur í litlu perlu Ingibjargar Þorbergs, Hin fyrstu jól, í raddsetningu píanista kórsins, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur, er átti fjórar aðrar á prógramminu. Í Yfir fannhvíta jörð (Miller, Wells; radds. AÞ) var kórinn aftur farinn að dofna og jafnvel lafa, en náði sér þó síðan aftur á strik með millibilum.

Einna bezt komu út Það heyrast jólabjöllur (betur þekkt sem hljómsveitarlag Leroys Andersons "Sleigh Ride"; úts. SH), Jólastjarnan (úr sálmasafninu Piae cantiones í fjölbreyttri raddsetningu SH). Syng barnahjörð (Joy to the World Händels) skemmdist svolítið af afkáralegum bæjaraslætti kontrabassans, en franska lagið Jólaklukkur (viðlag "Gloria, hosanna in excelsis") og þó sérstaklega hið frábæra lag Jórunnar Viðar, Jól (skelfilega óeftirminnilegur titill!) stóðu upp úr seinni hlutanum, enda þótt inntónunin í lagi Jórunnar hefði mátt vera hreinni. Annars var söngur kórsins í heild samtaka og glaðlegur, þótt sumir hefðu vænst kraftmeiri hljóms af öðrum eins fjölda.

Í síðasttalda laginu söng gestur kórsins, Sigurjón Jóhannesson tenór, í 3. erindi. Þar að auki söng hann einn við oftast þokkafullan píanóundirleik Aðalheiðar (burtséð frá smáfipi í Caccini) Hátíð fer að höndum ein (ísl. þjóðlag), er vakti athygli fyrir sérkennilega og ekki með öllu óumdeilanlega hljómaframvindu í raddsetningu Hildigunnar Rúnarsdóttur. Einnig söng hann "Ave Maríaen" [sic?] eftir Caccini, Pieta signore eftir Stradella og með kórnum Ó, Jesúbarn (Eyþór Stefánsson) og Panis Angelicus (Franck). Þrátt fyrir snoturt raddfæri virtist tenórrödd Sigurjóns enn í mótun; fókusinn var mistraustur (síztur í Jól), tónstaðan stundum hniggjörn og mótunin almennt frekar dauf, þrátt fyrir ágætar undirtektir. Kvartettinn fjórar klassískar, söngkonurnar Signý Sæmundsdóttir (S), Björk Jónsdóttir (MS), stjórnandinn (A) og píanistinn, sem "hitaði upp" fyrir kórinn í byrjun utan dagskrár, kom hins vegar ljómandi vel út í glampandi samstilltri túlkun á Valsi í As eftir Brahms Op. 39,15 og Ritorno a Sorrento. (Hvorugt verk var tilgreint í kynningu og því háð skeikulu minni undirr.)

Bjöllukór Bústaðakirkju - 16 krómatískar bjöllur í höndum 8 ungmeyja með jólasveinahúfur - setti skemmtilegan aukasvip á miðhluta dagskrár frá lagi Andersons til Jólaklukkna, auk lokalagsins.

Nokkurrar ónákvæmni gætti í tónleikaskrá, er t.d. eignaði Ingibjörgu Þorbergs heiðurinn af texta Kristjáns frá Djúpalæk í Hin fyrstu jól. Þótt varla væri viðlit að prenta 22 söngtexta, hefði aftur á móti mátt geta frumheita erlendu laganna, enda oft fleiri en ein þýðing til á hverju, auk þess sem nýrri engilsaxnesk jólalög eru iðulega þekktari af enskum titlum sínum en íslenzkum.

Ríkarður Ö. Pálsson

bottom of page