top of page

Viðtal við Jóhönnu í apríl 1999

Á SUMARDAGINN fyrsta mun Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur bjóða til söngveislu í Íslensku óperunni, kl. 17 og 20. Á dagskrá eru íslensk og erlend lög. Með Léttsveitinni leika Árni Scheving, Pétur Grétarsson, Rúnar Georgsson, Tómas R. Einarsson og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, sem er undirleikari kórsins. Einsöngvari er Jón Kr. Ólafsson

Léttsveitin hefur starfað frá árinu 1995 undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur og við undirleik Aðalheiðar. Í kórnum eru 120 konur á öllum aldri sem hafa það að markmiði að sameinast í söng og gleði

 

 

 

 

 

Sumarsveifla er yfirskrift tveggja tónleika sem Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur heldur á sumardaginn fyrsta. Jóhanna V. Þórhallsdóttir er stjórnandi léttsveitarinnar. "Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur var stofnuð haustið 1995 á þeim tíma sem aðsóknin í Kvennakór Reykjavíkur var mjög mikil og hundrað konur þegar komnar í kórinn

Sumarsveifla er yfirskrift tveggja tónleika sem Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur heldur á sumardaginn fyrsta. Jóhanna V. Þórhallsdóttir er stjórnandi léttsveitarinnar.

"Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur var stofnuð haustið 1995 á þeim tíma sem aðsóknin í Kvennakór Reykjavíkur var mjög mikil og hundrað konur þegar komnar í kórinn. Forsvarsmenn kórsins ákváðu að stofna aðra söngsveit og eins og nafnið ber með sér var Léttsveitinni ætlað að leggja áherslu á flutning léttari tónlistar."

Jóhanna segir að fyrr en varði hafi konurnar í Léttsveit Kvennakórsins verið orðnar hundrað talsins og þær farnar að skipuleggja tónleikahald. "Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur er undir sama hatti og Kvennakór Reykjavíkur og því höfum við reynt að vera með aðrar áherslur í tónlistarvali. Við höfum lagt áherslu á að syngja skemmtitónlist. Við leggjum metnað í að flytja vandaða og góða dægurtónlist."

­ Á hvaða aldri eru konurnar í kórnum?

"Þetta eru konur af öllum stærðum og gerðum og á ýmsum aldri sem hafa það sameiginlega áhugamál að hafa gaman af því að syngja og til þess hittumst við tvisvar í viku."

­ Staldra konur lengi við í kórnum? "Margar konur hafa verið með frá upphafi en svona eins og gengur þurfa aðrar að hætta um stund til að eiga börn og hugsa um fjölskyldu, stunda nám eða sinna starfi. Þær koma síðan aftur þegar um hægist. Það má kannski segja að um 80% kvennanna í kórnum staldri lengi við en um 20% þeirra séu að koma og fara."
Jóhanna segir að innan kórsins starfi góð stjórn sem haldi utan um allar ferðir kórsins, skemmtun og aðra starfsemi.

Er félagslíf innan kórsins blómlegt?

" Já. Við förum í æfingabúðir og skemmtum okkur þá saman. Á árshátíðum hittast allir fimm kórarnir sem starfa undir hatti Kvennakórs Reykjavíkur. Á sumrin liggja æfingar niðri og þá hittumst við engu síður og göngum saman bæði hér í borginni og í útjaðri hennar."
Jóhanna segir að einu sinni á ári fari hópurinn saman í útilegu, bjóði með fjölskyldunni og eyði saman einni helgi.

­ Hafið þið haldið marga tónleika?

"Við höfum haldið sveiflutónleika á hverju vori og farið tvisvar sinnum til Írlands til að syngja. Við héldum tónleika á Írlandi og tókum einnig þátt í kórakeppni þar."

Síðastliðið haust heimsótti kórinn Kvennakór Bolungarvíkur og Jóhanna segir að sú ferð hafi verið mjög skemmtileg. "Við sungum með kórnum á Bolungarvík en einnig á Ísafirði. Fyrir skömmu sungum við svo með Karlakór Hreppamanna á Flúðum og einnig höfum við heimsótt Karlakór Rangæinga."

­ Hvað ætlið þið að syngja á tónleikunum núna?

 

"Við fengum til liðs við okkur Jón Kr. Ólafsson frá Bíldudal en honum kynntist ég fyrir vestan. Hann er gamalreyndur í bransanum og syngur gömlu dægurlögin af einstakri snilld.

Auk Jóns koma fram með okkur Óskar Guðjónsson saxafónleikari, Árni Scheving víbrafónleikari, Tómas R. Einarsson bassaleikari, Pétur Grétarsson slagverksleikari og síðast en ekki síst Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanóleikari og hljómsveitarstjóri, en hún hefur útsett flest laganna sem við flytjum."

Jóhanna segir að þeir sem oft hafi á sínum tíma hlustað á Frívaktina eða Lögin við vinnuna kannist við mörg lög sem sungin verða á sumardaginn fyrsta. "Við syngjum lög eins og Ömmubæn, Nonni, Nonni þú ert ungur enn og Óla rokkara."

­ Hvað er svo framundan hjá kórnum?

"Í haust verður haldið kvennakóramót á Siglufirði og kórinn ætlar auðvitað að taka þátt í því. Við förum svo að undirbúa tónleikahald árið 2000 eftir að sumarfríi lýkur en það verður mikið söngár."

Tónleikar Léttsveitar Kvennakórs Reykjavíkur á sumardaginn fyrsta verða í Íslensku óperunni og hefjast þeir klukkan 17 og klukkan 20.

Jóhanna V. Þórhallsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1957. Hún stundaði söng­ og tónlistarnám í tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og í Royal Northern College of Music í Manchester.

Hún sótti einkatíma í London hjá prófessor Dell'Acqua, Tónlistarskólanum í Fiorenzuola hjá Ratti og í Vínarborg hjá prófessor Svanhvíti Egilsdóttur.

Jóhanna stjórnar Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, samkór Trésmíðafélags Reykjavíkur og barna- og stúlknakór Bústaðakirkju. Hún kennir við Nýja söngskólann, "Hjartansmál", og syngur með kvartettinum 4 klassískar og með hljómsveitinni Six-pack Latino.

Hún á tvö börn, Hildigunni og Guðmund Þóri.


 

Mynd Jóhanna Þórhallsd.jpg

Tónleikagagnrýni
| Tónlist |25. apríl 1999
Með bærilegri léttúð

TÓNLIST Íslenzka óperan KÓRTÓNLEIKAR

 

Ýmis inn- og erlend djass- og dægurlög. Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur u. stj. Jóhönnu V. Þórhallsdóttur; Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanó, Árni Scheving víbrafónn, Pétur Grétarsson trommur, Óskar Guðjónsson T-saxofónn, Tómas R. Einarsson kontrabassi. Einsöngur: Jón Kr. Ólafsson. Fimmtudaginn 22. apríl kl. 20.

 "LÉTTSVEIT" leiðir eflaust huga margra að upphafi Stórsveitar Ríkisútvarpsins sællar minningar, þegar sú mæta ljósvakastofnun hafði mátt og metnað til að gera út rjómann af þáverandi djassleikurum landsins, áður en fjárveitingarvaldið tók að brýna niðurskurðarbusana. Þá voru 15 manns nægur fjöldi til að fylla léttsveit.

 

Hvort léttsveitarnafngift sérdeildar Kvennakórs Reykjavíkur boðar stefnu synkópna og blárra nótna í verkefnavali framtíðar skal hins vegar ósagt látið, þótt þær hundraðmenningar hefðu dugað heilum fjórum stórsveitum. Hvað sem líður breiðum smekk eða þröngum, þá stendur djassinn í huga flestra skör lægra en klassík og "nútímatónlist" í listrænni virðingarröð tóngreina; dægurlagið enn neðar.

Skerpist enn á þessum mun í litlu samfélagi fákeppni, sem lengst af hefur mótazt af takmörkuðu framboði á "millitónlist" sem svo mætti kalla ­ þ.e. vandaðri afþreyingartónlist sem byggð er á fagmennskulegum metnaði.

En vera má að framlag á við þeirra Léttsveitarkvenna ­ með dyggri aðstoð færustu hljómlistarmanna djassgeirans ­ sé einn af vorboðum nýrra og betri tíma í þeim efnum. Lengst af hefur verið lenzka að meta almenna þátttöku ofar gæðum, þegar slegið er á létta strengi. En þó að hrein skemmtitónlist geti vitanlega seint gert sömu kröfu til athygli og dýpstu mið færustu listamanna, má ekki gleyma því gagni sem fjölbreytt og vönduð afþreyingartónlist getur gert hugsuðum háloftanna með viðmiðun, aðhaldi og hvatningu upplýstrar alþýðu, er mjókkar gjár og veitir jarðsamband.

Það var annars ekki verkefnavalið í sjálfu sér á troðfullum tónleikum Léttsveitarinnar í Íslenzku óperunni á fimmtudagskvöldið var sem ýtti þessum hugrenningum af stað. "Afdankaðir" slagarar á borð við Ömmubæn, Þú ert ungur enn, Hvítu mávar, Segðu ekki nei, Óli rokkari, kalypsinn Jamaica Farewell, Besame Mucho og A Nightingale Sang in Berkeley Square (í annars frábærri útsetningu Alans Billingsleys, þótt glimrandi íslenzkun Jónasar Árnasonar væri hunzuð af óskiljanlegum ástæðum) hafa án efa hleypt fyrirfram hrolli í fíngert hörund fagurkera. En því rann megnið ljúflega niður þegar til kom, að þessar hrumu lummur frá 5. og 6. áratug hljómuðu óvænt ferskar í söngglöðum, samtaka og tandurhreinum flutningi kvennanna, sem auk þess skörtuðu öfundvert skýrum framburði í a.m.k. íslenzku textunum.

Þá var og vel frá meðleik djassveitarinnar gengið undir forystu aðalútsetjarans, Aðalheiðar Þorsteinsdóttur, er fyllti sitt hlutverk af þokka, þótt næði eðlilega ekki sveiflumögnun Árna Scheving og Óskars Guðjónssonar á víbrafón og tenórsax í sólóinnslögum þeirra.

Þar fyrir utan var dagskráin breiðari í heild en ofar er getið; m.a. a cappella kórlögin Ó blessuð vertu sumarsól, Ég á það heima sem aldrei gleymist, Nú sefur jörðin og Sumar er í sveitum, þrjú síðustu í ágætum raddsetningum Hildigunnar Rúnarsdóttur, auk sjálfstæðra innslaga djassveitar, fyrir utan að Jón Kr. Ólafsson söng forsöng eða einsöng í nokkrum lögum. Kentucky-lagið Black is the Color of my True Love's Hair var svolítið óhreint í flutningi lítils kórhóps, en hressilegt lokanúmerið I'm a Woman (Leiber/Stoller) gerði mikla og verðskuldaða lukku.

Þær stöllur Jóhanna V. Þórhallsdóttir kórstjóri og Aðalheiður Þorsteinsdóttir, píanisti og útsetjari, hafa hér greinilega manað fram afl sem ekki verður stöðvað, ef tekst að halda sömu flutningsgæðum við ekki minni fjölbreytni í verkefnavali.

Ríkarður Ö. Pálsson

bottom of page