top of page

Fréttatilkynning feb 2015

| Tónlist | 13. febrúar 2015

Léttsveit Reykjavíkur 20 ára

• Hátíð í Ráðhúsinu á morgun og tónleikar í Hörpu í maí

„100 raddir“ er yfirskrift hátíðar kvennakórsins Léttsveitar Reykjavíkur sem haldin verður í Ráðhúsi Reykjavíkur á morgun milli kl. 13 og 17. Hátíðin er liður í afmælisdagskrá sveitarinnar sem fagnar 20 ára afmæli sínu á árinu. Í Ráðhúsinu verða til sýnis ýmsir munir og myndir úr kórstarfinu sem safnast hafa á 20 árum.

Kórinn mun syngja nokkur lög kl. 14 og 16 og m.a. frumflytja lagið „100 raddir“ eftir Eygló Eyjólfsdóttur, sem söng með Léttsveitinni í mörg ár, en hún lést fyrir nokkrum árum

Í maí nk. eru fyrirhugaðir veglegir afmælistónleikar,

en þar verða frumflutt lög sem sérstaklega eru

samin fyrir afmælið. „Í haust, nálægt hinum

eiginlega afmælisdegi, munu Léttur halda upp á

tímamótin með veislu. Þess má geta að íslenskar konur

halda á þessu ári upp á að hundrað ár eru liðin frá

því þær fengu kosningarétt. Léttsveitin mun í vor

koma fram á hátíðahöldum af því tilefni og

frumflytja ljóð og lag sem verið er að

semja sérstaklega fyrir kórinn,“ segir m.a. í tilkynningu.

Í kórnum eru 120 konur en um 500 konur hafa

sungið með kórnum frá upphafi.

„Jóhanna Þórhallsdóttir stjórnaði Léttsveitinni frá

upphafi til ársins ársins 2012 er Gísli Magna tók

við sprotanum. Aðalheiður Þorsteinsdóttir píanóleikari hefur

starfað með kórnum frá stofnun hans árið 1995,“ segir í tilkynningu.

Þar kemur fram að á sl. 20 árum hafi Léttsveitin haldið 60 tónleika,

farið í tíu utanlandsferðir og ellefu ferðir innanlands.

Með kórnum hafa sungið 40 einsöngvarar fyrir um 30 þúsund áheyrendur.

Allir eru velkomnir á hátíðina í Ráðhúsinu á morgun. „En þó viljum við sérstaklega bjóða velkomnar allar þær konur sem í skemmri eða lengri tíma tilheyrðu Léttsveitinni.“

Söngelskar
Alls eru 120 konur í Léttsveit Reykjavíkur, en um 500 konur hafa sungið með kórnum frá upphafi. — Ljósmynd/Erling

Fréttatilkynning & viðtal við Margréti Þorvalds  2015

| Innlendar fréttir |2. maí 2015

Fjölmennasti kór landsins

• Tónleikar í tilefni 20 ára afmælis kvennakórsins Léttsveitar Reykjavíkur

Kvennakórinn Léttsveit Reykjavíkur heldur upp á 20 ára afmæli kórsins á árinu og sérstakir hátíðartónleikar verða í Silfurbergi Hörpu laugardaginn 9. maí næstkomandi.

Föstu liðirnir hjá Léttsveitinni eru jólatónleikar og vortónleikar.

 

Margrét Þorvaldsdóttir, sem hefur verið í kórnum í 16 ár, er fyrrverandi formaður hans og situr í afmælisnefndinni, segir að æfingarnar í vetur hafi tekið mið af komandi tónleikum og boðið verði upp á ferskt og nýtt efni í bland við vinsæl dægurlög. Í hópi lagahöfunda eru Magnús Eiríksson, Sinéad O'Connor, Paul Simon, Bragi Valdimar Skúlason, Tómas R. Einarsson og Jóhanna V. Þórhallsdóttir, kórstjóri sveitarinnar frá byrjun til 2012, en Gísli Magna, núverandi kórstjóri, tók við keflinu 2012.

Léttsveitin var stofnuð 19. september 1995. „Hún er angi út úr hinu mikla kvennakórastarfi sem Margrét Pálmadóttir kom á laggirnar með stofnun Kvennakórs Reykjavíkur,“ rifjar Margrét Þorvaldsdóttir upp. Hún bendir á að hópurinn hafi verið svo fjölmennur að þurft hafi að skipta honum upp í nokkra kóra. Þá hafi meðal annars orðið til Gospelkór Reykjavíkur og Léttsveit Reykjavíkur. „Kvennakór Reykjavíkur hélt utan um allt þetta starf og árið 2000 var það orðið svo umfangsmikið að ákveðið var að hver kór yrði sjálfstæð eining þannig að við erum líka að halda upp á 15 ára sjálfstæðisafmæli.“

Viðamikið starf

Um 500 konur hafa sungið með kórnum frá upphafi og þar af rúmlega 30 konur alla tíð, en um 120 konur syngja í honum að staðaldri. Kórkonur hafa farið í kórferðalög á vorin og að þessu sinni fara um 100 konur til Englands og Wales í júní. Kórinn hefur gefið út tvo geisladiska og fyrir áratug var gerð heimildarmynd um kórinn.

Kórkonur æfa einu sinni í viku á veturna auk þess sem raddæfingar eru þriðju hverja viku. Til margra ára hittust þær vikulega yfir sumarmánuðina og fóru í skipulagðar gönguferðir í borgarlandinu. Golfklúbbur hefur starfað innan kórsins í nokkur ár og heldur lokamót síðsumars ár hvert. Hópur „einstakra“, kórkonur sem búa einar, hittist síðan reglulega og sækir meðal annars ýmsa menningarviðburði saman.

„Þetta er fjölmennasti kór landsins, það er mikil gleði fólgin í því að syngja saman og úr verður mikil vinátta,“ segir Margrét.

 steinthor@mbl.is

Picture38.jpg

Léttsveit Reykjavíkur Kvennakórinn er fjölmennasti kór landsins og var fyrstur kóra til að halda tónleika í Eldborgarsal Hörpu. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason

2015 fréttatilkynning 20 ára.jpg

Umfjöllun um kórinn

Viðtal við Særúnu Ármannsdóttur

Léttsveit Reykjavíkur heldur jólatónleika þar sem blandað er saman Baggalútslögum, sígildum jólasöngvum og nýju lagi eftir Hafdísi Huld.

 

Konurnar í Léttsveit Reykjavíkur eru byrjaðar að syngja jólasöngvana strax í september. Það dugar ekki annað en að byrja snemma ef á að takast að æfa vel lögin fyrir árlega jólatónleika kórsins.

Særún Ármannsdóttir er formaður Léttsveitarinnar en kórinn fagnar 20 ára afmæli á þessu ári. „Kórinn var stofnaður árið 1995 og er upphaflega afsprengi Kvennakórs Reykjavíkur en varð sjálfstæður nokkrum árum síðar, settur á laggirnar með það fyrir augum að flytja kórverk í léttari kantinum.

 

Þau lög sem við syngjum eru ekki beinlínis léttmeti, en við tökum okkur ekki of hátíðlega og blöndum saman dægurtónlist og sígildum söngvum og nýjum verkum.“

Reiknast Særúnu til að Léttsveit Reykjavíkur sé stærsti kvennakór landsins en að jafnaði eru á bilinu 110 til 120 konur virkar í kórnum á hverjum tíma.

Tónleikar Léttsveitarinnar verða í Guðríðarkirkju þriðjudaginn 8. desember og fimmtudaginn 10. desember, kl. 20 í bæði skiptin. Á dagskrá tónleikanna eru jólalög úr öllum áttum.

Gísli Magna stjórnar kórnum en Aðalheiður Þorsteinsdóttir spilar á píanóið

og von er á góðum gestum á borð við Margréti Eiri söngkonu,

auk Tómasar R. Einarssonar bassaleikara og Kjartans Guðnasonar slagverksleikara.

Kaupa má miða í gegnum meðlimi kórsins og á Facebook-síðu Léttsveitarinnar.

Í „Harry Potter-kirkjunni“

Rennur miðaverðið til rekstrar kórsins og hjálpar meðal annars til að fjármagna árlegt ferðalag, ýmist innanlands eða utan. Hefur kórinn á undanförnum árum m.a. sungið á Ítalíu, Spáni, Kúbu og heimsótt Norðurlöndin. „Í sumar fórum við í afmælisferð til Englands og sungum m.a. í dómkirkjunni í Gloucester, sem margir þekkja úr kvikmyndunum um Harry Potter og tókum líka lagið í kirkjunni sem kennd er við Shakespeare, í Stratford Upon Avon.“

„Við höfum það líka fyrir sið í desember að syngja til stuðnings góðu málefni. Að þessu sinni ætlum við að syngja á styrktartónleikum í Laugarneskirkju og fyrir vistmenn og gesti Grensásdeildar endurhæfingar Landspítalans og færa þeim jólaandann,“ segir Særún.

Meðal verka sem flutt verða er nýtt jólalag eftir Hafdísi Huld, jólasöngvar úr smiðju grallaranna í Baggalúti í bland við sígild íslensk jólalög, jafnt nýrri sem eldri. Eru lögin mörg í nýjum útsetningum Gísla Magna og Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Særún segir það óneitanlega geta verið undarlegt að byrja að æfa jólalögin snemma á haustin. „Þökk sé kórstarfinu er maður óneitanlega farinn að hugsa til jólanna fyrr en ella. Ég er sjálf mikið jólabarn í mér og finnst þetta bara æðislegt. Skrítnast þykir mér að koma út af jólaæfingu að kvöldi í miklu jólaskapi og uppgötva að það er enn bjart úti og jólin enn langt undan.“

Þá finnur Særún ekkert fyrir því þó að þátttaka í starfi kórsins kalli oft á tvær æfingar í viku. „Það er mjög gefandi að vera í kór og gott fyrir sálina að syngja. Sama hversu þreyttur maður kemur á æfingu er ekki annað hægt en að ganga út fullur af orku og gleði. Lífsgleðin er mikil í hópnum og félagsskapurinn góður enda segir það sína sögu að hópur kórkvenna hefur sungið með Léttsveitinni í 20 ár.“

ai@mbl.is

Léttsveitin í afmælisferð kórsins í sumar þar sem þær sungu m.a. í dómkirkjunni í Gloucester, sem margir þekkja úr kvikmyndunum um Harry Potter.

Viðtal við Særúnu Ármannsdóttur

bottom of page