top of page

Léttsveit Reykjavíkur

Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur var stofnuð haustið 1995 undir hatti Kvennakórs Reykjavíkur þegar aðsóknin í þann kór var mjög mikil og meðlimir orðnir um hundrað talsins. Forsvarsmenn Kvennakórs Reykjavíkur ákváðu því að stofna aðra söngsveit og var Léttsveitinni ætlað að leggja áherslu á flutning léttari tónlistar eins og nafnið gaf til kynna. Áður en varði voru konurnar í Léttsveitinni orðnar hundrað og farnar að skipuleggja tónleika. Léttsveitin, sem var enn undir hatti Kvennakórs Reykjavíkur var með aðrar áherslur í lagavali heldur en Kvennakór Reykjavíkur og var aðaláherslan lögð á að flytja vandaða og góða dægurtónlist.​

 

Stjórnandi kórsins var Jóhanna V. Þórhallsdóttir og undirleikari var Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Æft var í húsi Kvennakórs Reykjavíkur við Ægisgötu og voru fyrstu tónleikar kórsins haldnir þar þann 3. des 1995. Á efnisskránni voru ýmis lög auk nokkura jólalaga. Húsfyllir var af vinum og ættingjum og skemmtu allir sér vel.

 

Jóhanna Þórhallsdóttir var stjórnandi kórsins frá stofnun hans og allt til ársins 2012 er hún lét af störfum. Aðalheiður Þorsteinsdóttir var undirleikari kórsins frá upphafi og til ársins 2018 er hún hætti. Kórinn hefur frá upphafi verið fjölmennur og var lengi vel fjölmennasti kvennakór landsins með um og yfir 120 konur hverju sinni. ​​​

bottom of page