top of page
Concrete Wall

Léttur 2008

Þann 8. janúar hófust æfingar á ný og undirbúningur hélt áfram fyrir vortónleika og tónleikaferðir. Lögð var áhersla á íslensk þjóðlög og lög eftir íslenska höfunda.

Þetta vorið erum við 115

Umfjöllun og viðtöl vorið 2008


Þann 30. mars var haldinn langur sunnudagur og var hann haldinn í kjallara Bústaðakirkju. Þetta var því langur og strangur dagur hjá stjórnandanum og kórkonum. 

Vortónleikar Bústaðakirkju

Vortónleikar Léttsveitarinnar "Söngur í krafti kvenna" voru haldnir í Bústaðakirkju dagana 22. og 24. apríl. Gestur okkar að þessu sinni var Magga Stína sem söng Megasarlögin á sinn einlæga og krúttlega hátt.
Hljómsveitina skipuðu Alla, Tommi og Kjartan Guðnason slagverksleikari sem við fengum að láni hjá Sinfóníunni. Fyrir tónleikana var útbúin söngskrá sem var á þremur tungumálum, íslensku, færeysku og þýsku sem nýtast skyldi á tónleikum kórsins á Íslandi, Berlín og í Færeyjum. Margir komu að gerð skrárinnar. Ritnefnd og plakatnefnd unnu þar gott starf en Kristín Jóna sá um uppsetningu og prentun. Þá leituðum við til kunningja og vina sem af rausn sinni snöruðu öllum texta yfir á færeysku og þýsku. 

Efnisskrá tónleika

Berlín apríl 2008

Tónleikaferð til Berlínar 25. - 28. apríl.

Leiðsögumenn í Berlínarferð voru Jóhanna kórstýra og Óttar Guðmundsson. Haldið var af stað föstudaginn 25. apríl en tónleikarnir í Admirals Palast voru haldnir þann 26. apríl. Kórnum til halds og traust var hljómsveit skipuð Aðalheiði, Tómasi R. og Kjartani Guðnasyni og einsöngvarar voru Maríus Sverrisson og Hildigunnur Einarsdóttir.
Eftir vel lukkaða tónleika var haldið á veitingahúsið Sachs þar sem vertinn Árni Siemsen tók á móti hópnum. Þar snæddum við frábæran mat og mikið var sungið og dansað.

Á sunnudeginum var farið í skoðunarferðir þar sem Óttar jós úr brunni þekkingar sinnar á sögu 3. ríkisins og Hitlersáranna.  Mökum var boðið að koma með til Berlínar og vegna mjög góðrar þátttöku þótti tilvalið að halda árshátíð kórsins þar. Henni var valinn staður á Trabrennbahn sem er skeiðvöllur í einu úthverfa Berlínar. Veislunni stjórnaði Freyja Önundardóttir og höfðu skemmtinefnd og skreytinganefnd  séð um undirbúning til að gera veisluna sem skemmtilegasta sem og varð raunin. Allt fullt af atriðum, hljómsveit sett saman í snarheitum og dansinn stiginn að lokinni formlegri dagskrá.
Haldið var af stað heim til Íslands kl. 18.30 á mánudegi og fljótt varð ljóst að töf yrði á fluginu heim. Engan grunaði þó á þeirri stundu að töfin yrði slík sem raun varð á. 12 tímum eftir brottför af hóteli fór vélin í loftið. Þá átti hópurinn  að baki erfiða nótt á gólfi og grjóthörðum og ísköldum stálbekkjum flugstöðvarinnnar í Berlín.

Efnisskrá tónleikana 

Starfsárið 2008-2009 hófst með æfingum fyrir Færeyjaferð hófust 26. ágúst

Við byrjum 116 talsins

Færeyjar ágúst 2008

Tónleikaferð til Færeyja.
Lagt var af stað frá Reykjavíkurflugvelli til þann 12. ágúst. Morguninn eftir var skipulögð gönguferð með leiðsögumanni um Þinganes og miðbæ Þórshafnar. Í hádeginu var  borgarstjóri Þórshafnar, Héðin Mortensen, með móttöku í Mullers pakkhúsi  en þangað kom heldur votur og hrakinn hópurinn og þáði veitingar í boði borgarinnar. Launuðum við borgarstjóra móttökurnar með söng sem hljómaði einstaklega vel í þessu gamla húsi.
Þar næst  hélt hópurinn í tveimur hollum til Kirkjubæjar. Staðarhaldarar þar buðu upp á kaffi og með því í aldagömlum húsakynnunum þar sem Sveinur Tummasson leiðsögumaður fræddi okkur um sögu Færeyinga en Kirkjubær á einmitt stóran og merkilegan sess í þeirri sögu. Á meðan annar hópurinn var á Kirkjubæ fór hinn á tískusýningu þar sem sýnt var margt það nýjasta í færeyskri fatahönnun.

Tónleikar Léttsveitarinnar voru haldnir í Norðurlandahúsinu þann 14. september kl. 17.00. Söngskráin samanstóð af mestu af íslenskri tónlist. Hljómsveitina skipuðu sem fyrr þau Alla, Tommi og Kjartan. Nokkrar breytingar höfðu verið gerðar á efnisskránni frá því í vor. Þremur hressandi spænskum- portugölskum lögum  var bætt í ásamt þremur hugljúfum færeyskum lögum. Eitt þeirra söng Jóhanna en einsöngvari kórsins að þessu sinni var okkar eina og sanna Aðalheiður Stefánsdóttir. Óstaðfestar tölur herma að um 120 manns hafi sótt tónleikana og voru þar á meðal íslenski ræðismaðurinn og hans kona ásamt borgarstjóranum í Þórshöfn. 

Mánudaginn 15. sepember var haldið í ferð til Austureyjar. Fyrsta stopp í þeirri ferð var á heimili aldraðra í Norðskála. Þar voru sungin nokkur lög fyrir aldinn höfðingja og vin leiðsögumanns okkar Sveinurs. Sjaldan eða aldrei höfum við sungið fyrir fámennari en jafnframt þakklátari hóp og þann tveggja manna hóp. Hádegisverður var snæddur í Gjógv, en þar var í boði færeyskt lostæti, skerpukjöt og hvalsspik ásamt kunnuglegri mat, s.s. fiskibollum og síld.

Þar næst var haldið í Fuglafjörð og skoðað og verslað færeyskt handverk. Tónleikar í Tóftum. Þar tók á móti okkur Alfreð Ólsen, þingmaður. Kirkjuklukkum var hringt til að kalla fólk til kirkju til að hlýða á tónleikana sem hófust kl. 19.30. Sungin voru heldur færri lög en í Norðurlandahúsinu, Atla rappið og Rasmus í Görðum m.a. tekin út en í þeirra stað voru lesnar bænir bæði á undan söng og á eftir. Að margra mati var eitthvað alveg sérstakt við að syngja í þessari látlausu en fallegu kirkju í Tóftum. 

Kl. 11.00 á þriðjudagsmorgni var haldið út á flugvöl á Vogum og heimferðin hafin og held ég segja megi að það hafi verið vel sáttur hópur sem lenti mjúkri lendingu á Reykjavíkurflugvelli eftir vel heppnaða heimsókn til frænda okkar í Færeyjum.

Efnisskrá tónleikana

Á haustmánuðum barst okkur bréf frá Gígjunni, Landsamtökum íslenskra kvennakóra, þar sem okkur var boðið að gerast félagar í samtökunum. Stjórnin ákvað að verða við því boði og í  janúar gerðist Léttsveitin því meðlimur Gígjunnar. Langflestir kvennarkórar landsins starfa innan samtakanna og þótti okkur tilhlýðilegt að stærsti kór landsins væri þar ekki undanskilinn.

Heimasíða Gígjunnar

Þann 9. október var haldið skemmtikvöld í Fóstbræðraheimilinu til heiðurs okkar ágætu vinkonu, Ingibjörgu Pétursdóttur, Bimbu. Bimba varð sextug þann 21. september og því ærið tilefni til að halda veislu. Bimba bauð sínum nánustu til veislu, kórkonum bauðst að taka gest með sér og var öllum skemmt með kórsöng og gamanmálum. Stofnaðar voru margar nefndir í tilefni dagsins, konur bökuðu og smurðu, Signý og Tómas R. mættu og með samstilltu átaki tókst að gera þetta að veislu sem lengi verður í minnum höfð. 

Langur laugardagur var haldinn í Bústaðakirkju 25. október.

Dekur og Djamm dagurinn var haldinn í Briddssalnum þann 8. nóvember. Þema dagsins var “back to basics” þar sem gömlu, góðu gildin skyldu vera í hávegum höfð, enda efnahagshrunið ógurlega skollið á og  húsmæður Íslands farnar að leita í skjóður formæðra sinna sem ólust margar upp við þrönga kosti og þurftu á ráðdeild og hagsýni í búrekstri sínum að halda.
Framleiddar voru sultur og bökur, brauð og kökur sem aldrei fyrr sem allt rann út.

Fataskápar kórkvenna tæmdust margir að hálfu eða heilu leiti og gamlir kjólar og dragtir fengu endurnýjun lífdaga í nýjum skápum og á nýjum konum. Kórkonur og utanaðkomandi konur voru með margvíslega sölubása þar sem seldar voru m.a. snyrtivörur, skartgripir, ljósker og m.fl. Kórinn söng að vanda, Bára Grímsdóttir flutti rímur ásamt sínum manni, Tómas R. kynnti nýútkomin geisladisk sinn og fleiri söngatriði voru á dagskrá. Afrakstur dagsins rann síðan í ferðasjóðinn eins og endranær.

Léttsveitin söng við messu í Bústaðakirkju sunnudaginn 30. nóvember, en tilefnið var frumflutningur á laginu “Ég heyrði þau nálgast” eftir Jón Ásgeirsson. Jón samdi þetta lag fyrir kvennakóra innan Gígjunnar og var lagið flutt í fleiri kirkjum þennan dag.

Aðalfundur

Aðalfundur Léttsveitarinnar var haldin þriðjudaginn 23.sept. Formaður fór yfir árið og gjaldkeri fór yfir ársreikninga. Kosin var ný stjórn. Úr stjórn gengu Herdís Eiríksdóttir og Oddný Sigsteinsdóttir. Nýjar í stjórn Erna Hanna Guðjónsdóttir og Kristín Jónsdóttir. Stjórn er þannig skipuð: Margrét Þorvaldsdóttir formaður, María Björk Viðarsdóttir gjaldkeri, Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, Erna Hanna Guðjónsdóttir og Kristín Jónsdóttir. 
 
Stjórn Léttsveitarinnar haust 2008 - haust 2009
Margrét Þorvaldsdóttir, 1. sópran, formaður 
María Björk Viðarsdóttir, 2. alt, , gjaldkeri
Erna Hanna Guðjónsdóttir, 1. alt, ritari
Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir, 2. sópran, meðstjórnandi
Kristín Jónsdóttir, 1. sópran, meðstjórnandi

Jólatónleikar Bústaðakirkju

Jólatónleikarnir voru haldnir í Bústaðakirkju þriðjudaginn 9. desember og fimmtudaginn 11. desember og báru yfirskriftina "Jólabros í skóinn". Einsöngvari á tónleikunum var Bjarni Thor Kristinsson bassi og auk þess sungu með okkur Kammerkór stúlkna í Bústaðakirkju. Hljómsveitin var skipuð Aðalheiði Þorsteinsdóttur á píanó, Krisínu Jónu Þorsteinsdóttur á slagverk og Tómasi R. Einarssyni á bassa. Húsfyllir var á báðum tónleiknum og tókust þeir frábærlega vel. Skemmtileg lög og falleg stemmning.

Efnisskrá tónleikana

Umfjöllum í Vísi um tónleikana

bottom of page