top of page
Concrete Wall

Léttur 2002

Hið árlega nýárspartí hjá Önnu Tryggva var haldið 11. janúar og var mæting afar góð, allar skemmtu sér konunglega yfir mat og drykk.
Vorönn hófst 15. janúar og var strax byrjað að æfa fyrir Danmerkurferðina sem farin verður í maí.

Konur eru 105 þetta vorið

Farið var í æfingabúðir í Munaðarnes helgina 22.-24. febrúar. Brjálað veður var á leiðinni upp eftir en við komust á áfangastað. Dregið var í bústaði og stutt æfing á föstudagskvöldið. Laugardagurinn fór í æfingar og síðan var kvöldverður og ball að hætti Léttsveitarinnar um kvöldið. Það voru þreyttar og ánægðar Léttsveitarkonur sem héldu heim á sunnudeginum eftir frábærar æfingabúðir.

 Léttsveitarkona. Lag og texti frá skemmtinefnd 

Laugardaginn 2. mars söng Léttsveitin ásamt Álafosskórnum, Skólahljómsveit Mosfellsbæjar, Kvennakór Bolungarvíkur og Alba-hópnum á "Laugardagskvöldi á Gili" í Ými. Léttsveitin söng nokkur lög úr vorprógrammi sem farið verður með til Danmerkur í maí. Skemmtilegir tónleikar í alla staði.

Árshátíð & fleira

Árshátíð Léttsveitarinnar var haldin föstudaginn 22. mars í Versölum við Hallveigarstíg. Þetta var fyrsta árshátíðin sem Léttsveitin heldur og var hún vel sótt. Eygló Eyjólfsdóttir var veislustjóri og kórstjórinn okkar, Jóhanna Þórhallsdóttir, var ræðumaður kvöldsins.

Nokkrar konur úr Léttsveitinni fluttu frumsaminn brag eftir Gerði Hafsteinsdóttur og Einar Gylfi, eiginmaður Ingibjargar Pétursdóttur, Bimbu, flutti fyrirlestur fyrir hönd SALSA-non, þ.e. Samtaka aðstandenda Léttsveitar alka. Fór hann á kostum og viðstaddir grétu flestir úr hlátri, svo skemmtilegur var hann.
Hundur í óskilum flutti nokkur lög við mikinn fögnuð og síðan léku þrír fingrafimir gítarleikarar fyrir dansi fram á nótt.
Þessi árshátíð var ótrúlega vel heppnu
ð og skemmtileg í alla staði, maturinn frábær og nokkuð víst að þetta verður endurtekið að ári.

Bragurinn hennar Gerðar

Léttsveitin gaf út bókina "Uppskriftir Léttsveitarheimila" áður en haldið var til Danmerkur síðar í mánuðinum og var útgáfan liður í fjáröflun til þeirrar ferðar. Í bókinni er að finna uppáhaldsuppskriftir flestra Léttsveitarkvenna, auk uppskriftar frá Tómasi R. Einarssyni bassaleikara sem hefur spilað með Léttsveitinni á flestum tónleikum okkar, Jóhönnu stjórnanda og Aðalheiði píanóleikara. 

Vortónleikar Ými

Vortónleikar Léttsveitar Reykjavíkur voru haldnir í Ými, Skógarhlíð 20, fimmtudaginn 9.maí kl. 20.00 og laugardaginn 11.maí kl 15.00 og 17.00 "Den lille lysegrønne sang, Turen går til Norden" var yfirskrift tónleikanna að þessu sinni. Auk Aðalheiðar á píanó lék Tómas R. Einarsson með á bassa.
Á efnisskránni voru lög frá Norðurlöndunum, Rússlandi og svo auðvitað Íslandi. Sungin var syrpa laga eftir Atla Heimi Sveinsson við ljóð Jónasar Hallgrímssonar, og var það vel við hæfi þar sem Léttsveitin er á leið í tónleikaferð til Danmerkur þar sem Jónas dvaldi löngum. Tónleikarnir tókust frábærlega vel og segja margir sem tónleikana sóttu að aldrei hafi Léttsveitin sungið betur. Það verður gaman að syngja þetta skemmtilega prógramm fyrir Dani í Tivoli í Kaupmannahöfn og í Árósum og Svía í Lundi.

Efnisskrá tónleikana

Bréf frá Léttsveitarkonu 

Léttsveitin í Danmörku & SvíþjóðMeð í för var Tómas R. Einarsson, bassaleikari, en hann er orðið hálfgert viðhengi Léttsveitarinnar, eltir okkur hvert sem við förum. 
Miðvikudaginn 29.maí söng Léttsveitin í Tivolí í Kaupmannahöfn og var það mál manna að tónleikarnir hefðu heppnast vel. Allavega náði Léttsveitin lengra en Stuðmenn um árið. Sungið var á stóra sviðinu í Tivolí, Plænen.
Fimmtudaginn 30.maí voru tónleikar í Stadsteatern í Lundi. Með okkur söng Cantemus kórinn, vinakór okkar í Lundi og voru þetta ekki síður góðir tónleikar en í Tivolí. 
Laugardaginn 1.júní voru svo síðustu tónleikar okkar í þessari frábæru og ógleymanlegu ferð en þeir voru haldnir í Scandinavian Center í Árósum og söng þar Íslendingakórinn í Árósum með Léttsveitinni.
Fjölmenni var á öllum tónleikunum og má með sanni segja að við höfum slegið í gegn í Dana- og Svíaveldi. Í ferðinni var gist í lýðháskóla í Vallekilde í nágrenni smábæjarins Hövre og Holbæk. Móttökurnar voru einstakar og maturinn...umh... Það sama má segja um gestgjafa okkar í Lundi og Árósum. Þessi ferð er öllum ógleymanleg sem í hana fóru.

Farið var í hina árlegu útilegu Léttsveitarinnar í Galtalækjarskóg helgina 26-28. júlí. Óvenju góð mæting var og skemmtu allir sér frábærlega vel í ágætu en frekar svölu veðri.
Haustönn hófst þriðjudaginn 10. september. Léttsveitin hefur flutt sig um set og æfir nú í Fóstbræðraheimilinu við Langholtsveg.

Aðalfundur

Aðalfundur Léttsveitarinnar var haldinn 1. október í Fóstbræðraheimilinu. Starfsemin síðasta ár var rakin af formanni stjórnar, Margréti Þorvaldsdóttur og ársskýrslan kynnt af gjaldkera, Maríu Björk Viðarsdóttir. Tvær konur, þær Elín Stella Gunnarsdóttir og Elín Sigríður Jósepsdóttir, gengu úr stjórn og kjörnar voru Védís Skarphéðinsdóttir og Ingibjörg Gunnlaugsdóttir. Fundarstjóri var Hildur Jónsdóttir og ritari Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir.

Stjórn Léttsveitarinnar haust 2002 - haust 2003
Margrét Þorvaldsdóttir, 1. sópran, formaður
Þórkatla Aðalsteinsdóttir, 1. sópran, varaformaður
María Björk Viðarsdóttir, 2. alt, gjaldkeri
Védís Skarphéðinsdóttir, 2. alt, aðstoðargjaldkeri
Ingibjörg Margrét Gunnlaugsdóttir, 2. sópran, ritari 

Stjórn Léttsveitarinnar 2002-2003. frá vinstri: María Björk, Védís, Margrét, Ingibjörg Margrét og Þórkatla.

Léttsveitin söng á minningartónleikum um Svanhvíti Egilsdóttur í Hafnarborg miðvikudaginn 20. nóvember. Auk Léttsveitarinnar sungu á tónleikunum 4Klassískar, Ingveldur Ýr Jónsdóttir og Snorri Wiium. Vel heppnaðir og vel sóttir tónleikar.
Léttsveitin fór í æfingabúðir helgina 18.-20. október. Að þessu sinni var farið í Hlíðardalsskóla í Ölfusi sem rekin er af aðventistum. Æfðum við mikið og vel og borðuðum mikið af þeim frábæra mat sem staðarhaldarar sáu um. Var haft á orði að þetta jafnaðist að öllu leyti á við Vallekilde í Danmörku þar sem Léttsveitarkonur átu yfir sig.

Jólafjölskyldutónleikar

Léttsveitin var með jólafjölskyldutónleika Ráðhúsi Reykjavíkur sunnudaginn 
15. desember kl. 16.00. Sungin voru skemmtileg jólalög og komu börn og barnabörn Léttsveitarkvenna og sungu með Léttsveitinni. Skemmtilegir og ljúfir tónleikar.

Léttsveitin lauk árinu með því að syngja við messu á Þorláksmessu. Messan var haldin í tjaldi í Austurstrætinu vegna rigningar. Prestur var séra Jóna Hrönn og einnig talaði Biskup Íslands séra Karl Sigurbjörnsson.

bottom of page