top of page

Viðtal við Margréti Pálmadóttir 8.maí 1997

Vortónleikar Kvennakórs Reykjavíkur. Síðustu tónleika Margrétar að sinni.



 


KVENNAKÓR Reykjavíkur heldur vortónleika í Langholtskirkju á morgun, föstudag, kl. 20.30 og á laugardaginn og sunnudaginn kl. 17. Þetta er í fimmta skipti sem kórinn heldur vortónleika og hefur Margrét Pálmadóttir, sem er stofnandi kórsins, verið stjórnandi á öllum þeirra. Þetta er hins vegar í síðasta sinn sem Margrét stjórnar kórnum að sinni en hún hyggst draga sig í hlé frá starfsemi hans.

"Mitt viðhorf er það að stofnandi fyrirbæris eins og kórs eigi ekki að starfa lengur með honum en í fjögur til sex ár; þá er hann búinn að gera það sem hann getur og á að leyfa öðrum að komast að. Maður verður eiginlega of ráðandi eftir svona mörg ár og kórinn verður að fá tækifæri til að þroskast áfram. Það er kominn tími til að veita kórnum frelsi, hann er kominn á legg og því tími til kominn að ég dragi mig í hlé. Það mun því önnur kona taka við kórstjórninni næsta vetur, Sigrún Þorgeirsdóttir, söngkona og eðlisfræðingur. Hún er yngri en ég og menntuð í öðrum heimshluta líka, það er í Bandaríkjunum, og mun því væntanlega koma með nýja strauma inn í kórstarfið. En þótt ég sé að draga mig í hlé vona ég auðvitað að kórinn muni kalla á mig aftur við eitthvert tækifæri."

Margrét segist munu sakna Kvennakórs Reykjavíkur. "Það verður að segjast eins og er að þessi kór hefur hlotið langmesta athygli allra kvennakóra hér á Íslandi fyrr og síðar. Samt var hann ekki sá fyrsti, það var til Kvennakór Slysavarnafélagsins og Suðurnesja og fleiri áður en við fórum af stað. Kvennakór Reykjavíkur hefur verið sérstakur, til dæmis að því leyti að í honum hafa aldrei verið
færri en 120 konur á hverjum tíma og þess má geta að á tónleikunum um helgina koma fram á fjórða hundrað kvenna. Þetta hefur því verið mjög skemmtilegur tími."

Margrét segist vitanlega ekki vera hætt að starfa í tónlist eða með kórum. "Ég segi ekki alveg skilið við Kvennakór Reykjavíkur því ég mun halda áfram að stjórna litlum hópum á hans vegum og einnig einbeita mér að barnastarfi. Ég mun svo halda áfram að starfa með konum í kórum, bæði með formlegum kórum og óformlegum hópum. Næsta vetur mun ég starfa með Vox Feminae sem ég stofnaði reyndar samtímis Kvennakór Reykjavíkur en hans bíða mörg og spennandi verkefni."

Einsöngvarar tónleikanna um helgina vera Björk Jónsdóttir, Jóhanna Linnet, Jóhanna Þórhallsdóttir og Signý Sæmundsdadóttir. Gestir tónleikanna eru aðrir sönghópar sem starfa undir merki Kvennakórs Reykjavíkur; Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, Vox Feminae, Senjorítur, Kórskóli Kvennakórs Reykjavíkur og Stúlknakór Reykjavíkur.
 
Morgunblaðið/Ásdís 

Dómur um tónleika í maí 1997 - 13. maí 1997
 

Ef þig langar að syngja
TÓNLIST
Langholtskirkja
KÓRTÓNLEIKAR

Kvennakór Reykjavíkur Vox Feminae, Senjoríturnar, Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur, Kórskólinn og Stúlknakór Reykjavíkur, fluttu innlend og erlend söngverk undir stjórn Margrétar Pálmadóttur, Jóhönnu Þórhallsdóttur og Rutar Magnússon. Einsöngvarar voru Björk Jónsdóttir, Jóhanna Linnet og Signý Sæmundsdóttir. Undirleik önnuðust Svana Víkingsdóttir og Aðalheiður Þorsteinsdóttir. Laugardagurinn 10. maí, 1997.

"KONAN ein getur skapað það stórfljót, sem ekkert fær staðist," sagði einn vitur maður og má segja, að það hafi sannast í verki hjá Kvennakór Reykjavíkur, sem aðeins hefur starfað í fimm ár, undir forustu Margrétar Pálmadóttur. Tónleikarnir um síðustu helgi voru eins konar kveðjutónleikar, því Margrét hyggst draga sig að nokkru til hlés, undan því stjórnunarálagi, að þurfa að vera "prímus mótor" á öllum sviðum þeirrar margvíslegu starfsemi, sem þegar hefur verið byggð upp undir nafni Kvennakórs Reykjavíkur. Kórstarfið blómstrar en líklega mun kennslan í söng og tónfræðum (og hugsanlega í framtíðinni í hljóðfæraleik), er til lengdar lætur, skila mestu, því kunnáttan getur einnig verið aðalsmerki áhugamannsins.

Tónleikarnir hófust með atriðum úr ýmsum óperum, Töfraflautu Mozarts, Eugen Onegin, eftir Tjsaíjkovskíj, La Traviata eftir Verdi og seinni hluta óperunnar Systir Angelica, eftir Puccini. Inn á milli var flutt söngverkið Ständchen, op. 135, eftir Schubert. Jóhanna Linnet, Signý Sæmundsdóttir og Jóhanna Þórhallsdóttir fluttu söng drengjanna, Bald pragt den Morgen, úr Töfraflautunni og Signý söng með kórnum Ständchen, er Schubert samdi við ljóð eftir Grillparzer, fyrst fyrir alt og karlaraddir, en umskrifaði það síðan fyrir sópran og kvennakór.

Söngkonurnar og kórinn gerðu þessum verkefnum góð skil en meginverkið var lokaatriði úr óperunni Systir Angelica, eftir Puccini, er Björk Jónsdóttir söng af glæsibrag. Verkið er tilfinningaþrungið og náði Björk að túlka sorg og örvæntingu Angelicu á sérlega sannfærandi máta.

Vox Feminae fluttu tvö ungversk þjóðlög í raddsetningu Kodály og eitt lettneskt lag og var söngur þeirra fallega mótaður. Senjoríturnar nefnist söngflokkur kvenna komnar yfir sextugt og sungu þær þrjú lög, Myndin hennar Lísu, ágætt lag eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur, Bonnie Doom við texta eftir góðskáldið Robert Burns og Hve létt þú dansar, ítalskt þjóðlag. Þarna var sönggleðin í fyrirrúmi og var söngur þeirra í heild nokkuð góður, undir stjórn Rutar Margnússon.

Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur fæst aðallega við léttari viðfangsefni en aðalkórarnir og að þessu sinni voru á efnisskránni írsk þjóðlög og eitt dægurlag, Hvítu mávar. Írsku þjóðlögin voru Cocles and mussels, Ég man það enn og Paddy's Green Shamrock shore, en síðastnefnda lagið söng stjórnandi léttsveitarinnar, Jóhanna Þórhallsdóttir, ágætlega við undirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur.

Kvennakórinn kom aftur á svið og söng þrjú íslensk söngverk, fyrst Brúðarvísur, eftir Emil Thoroddsen, sem var glæsilega flutt, það fallega lag Atla Heimis, Við svala lind, er kórinn söng mjög vel og síðast sérlega skemmtilegan tónleik Þorkels Sigurbjörnssonar við ljóðið Konur, úr Þorpinu eftir Jón úr Vör.

Lokaatriði tónleikanna var samsöngur allra kóranna og þá voru flutt Á Sprengisandi og Betlikerlingin, bæði eftir Sigvalda Kaldalóns, og Ísland er land mitt, eftir Magnús Þór Sigmundsson, við hinn sérkennilega ættjarðaróð Margrétar Jónsdóttur. Öll lögin voru glæsilega flutt og í staðinn fyrir aukalög, sungu allir kóranir Ef þig langar að syngja, með þá ætlan í huga, að fá tónleikagesti til að taka undir. Fáir kunnu lagið og ef til vill hefðu nótur bjargað einhverju, en söngur kórsins var allur hinn besti. Undirleikararnir voru tveir, Arnheiður Þorsteinsdóttir, en einnig voru sungnar ágætar raddsetningar eftir hana á lögunum eftir Olgu Guðrúnu, Atla Heimi og tveimur írskum þjóðlögum, og Svana Víkingsdóttir, er lék sérlega vel í Systur Angelicu og Búðarvísunum eftir Emil.

Í heild var söngur kóranna mjög góður, þó Aðalkórinn og Vox Feminae færu fyrir öðrum, hvað snertir viðfangsefni og vandaðan söng. Það er ekki ofsögun sagt, að Kvennakór Reykjavíkur sé eitt stórt ævintýri og ef vel er á haldið, getur þessi stofnun orðið mikið músíkstórveldi og markað stór spor í tónlistarsögu okkar Íslendinga.

Jón Ásgeirsson

Fréttatilkynning nóv 1997 -4. nóv 1997

​Léttsveitin til Írlands

80 KONUR úr Léttsveit Kvennakórs Reykjavíkur héldu í gær, mánudag, til Sligo á Írlandi, ásamt stjórnanda sínum, Jóhönnu Þórhallsdóttur og Aðalheiði Þorsteinsdóttur píanóleikara. Með í för er fiðluleikarinn Wilma Young.

Hópurinn mun taka þátt í alþjóðlegri kórakeppni sem hófst í gær, og lýkur á fimmtudag. 40 kórar munu taka þátt í keppninni og taka þátt í ýmsum flokkum. Léttsveitin mun taka þátt í þremur flokkum og syngja íslensk og erlend lög með og án undirleiks. Þess má geta að Léttsveitin er einn af fjórum kórum sem valdir hafa verið til að syngja á opnunarhátíð keppninnar, hinir kórarnir eru frá Noregi, Rússlandi og Ungverjalandi.

bottom of page